Um hreyfitorg
Rannsóknir staðfesta að regluleg hreyfing við hæfi stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan og hefur fjölþætt gildi sem forvörn og endurhæfing þeirra helstu langvinnu sjúkdóma sem leggjast hvað þyngst á íslenskt samfélag. Þrátt fyrir það benda kannanir til að stór hluti Íslendinga á öllum aldursskeiðum hreyfi sig of lítið.
Hreyfitorg er gagnvirk vefsíða sem er ætlað að stuðla að aukinni hreyfingu landsmanna. Hlutverk vefsins er að brúa bilið á milli þeirra sem leita eftir þjónustu fyrir sig eða aðra (notenda) og þeirra sem standa fyrir hreyfitilboðum (þjónustuaðila).
Þjónustuaðilar sjá sjálfir um innskráningu upplýsinga. Til að forðast birtingu úreldra upplýsinga fá þeir reglulega áminningu um að endurskoða skráninguna. Þjónustuaðilar greiða ekki fyrir innskráningu á Hreyfitorg og þar með fyrir kynningu á sinni þjónustu.
Notendur eiga á einum stað, Hreyfitorgi, að geta fengið góða yfirsýn yfir sem flest þeirra hreyfitilboða sem eru til staðar á hverjum tíma, hvar sem er á landinu. Þar sem þarfirnar eru mismunandi er mikið lagt upp úr því að notendur geti með einföldum hætti síað út upplýsingar í samræmi við sínar þarfir, borið saman mismunandi valkosti og miðlað þeim áfram.
Aðstandendur Hreyfitorgs veita þjónustuaðilum aðgang til innskráningar en ábyrgjast á engan hátt gæði þjónustuaðila eða þeirrar þjónustu sem þeir skrá.
Eðli málsins samkvæmt er miðað við að um sé að ræða hreyfitilboð sem stuðla að heilbrigði og vellíðan. Rík áherslar er á að notendur taki upplýsta ákvörðun þegar þeir velja sér þjónustu. Með upplýstri ákvörðun er átt við að notendur noti upplýsingarnar sem fram koma til að velja sér þjónustu sem samræmist þeirra þörfum og þeir geri viðeigandi kröfur um gæði s.s. menntun, reynslu og aðbúnað.