Aukin hreyfing, hvernig?

Til að byrja með er gott að meta stöðuna og gera raunhæfar áætlanir í framhaldi af því.

Aukin hreyfing í tengslum við ferðamáta
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að hvíla eins og kostur er einkabílinn og velja ferðamáta sem felur í sér hreyfingu s.s. að ganga eða hjóla. Þannig má á einfaldan hátt uppfylla þarfir um lágmarkshreyfingu og njóta þess ávinnings sem því fylgir. Stærstu vöðvar líkamans eru virkjaðir, hjartað fær þjálfun og orkunotkun eykst. Auk þess sem ferðatíminn er nýttur til ókeypis heilsuræktar er þannig hægt að spara kostnað vegna einkabílsins, draga úr umferðarþunga og stuðla að heilnæmara lofti. Notkun almenningsvagna er einnig góður valkostur.

Aukin hreyfing í tengslum við vinnu, skóla og önnur störf
Almennt er mikilvægt að forðast langvarandi kyrrsetu og nýta þau tækifæri sem gefast til hreyfingar.

Dæmi:
    Standa reglulega upp og teygja úr sér. Er hægt að vinna e.-r. verkefni standandi í staðinn fyrir að sitja?
    Velja að ganga stiga í staðinn fyrir að taka lyftu.
    Eftir því sem við á, standa upp og ganga til vinnufélaga til að bera upp erindi í stað þess að nota rafrænar leiðir.
    Nýta t.d. hádegishlé og/eða önnur vinnuhlé til hreyfingar. Röskar gönguferðir þurfa t.d. ekki að taka langan tíma, kosta ekkert og geta boðið     upp á skemmtilega samveru með vinnufélögum.
    Taka þátt í ýmsum almenningsíþróttaverkefnum sem fela í sér hreyfingu. Það gefur ýmis tækifæri til að gera skemmtilega hluti saman og efla     liðsheildina.

Gott er að hafa í huga að þægilegur klæðnaður eykur líkurnar á að fólk hreyfi sig meira.

Aukin hreyfing í frítíma
Mikilvægt er að vera meðvituð um að takmarka þann tíma sem er varið í afþreyingu við skjá s.s. tölvu og sjónvarp. Þannig ætti að skapast meira svigrúm til afþreyingar sem felur í sér hreyfingu.

Ódýrt og einfalt á eigin vegum
Nýta sitt nánasta umhverfi, vera vakandi fyrir því sem fyrir augu ber og að njóta líðandi stundar.
Dæmi:
    Ganga á stígum, í görðum, í fjörum og á fjöll.
    Hjóla
    Synda

Skipulögð hreyfing með öðrum
Skoða hvaða þjónusta er í boði sem samræmist áhuga og þörfum hverju sinni en megintilgangur Hreyfitorgs er að auðvelda fólki þess leit.